Greenbrier Málið
- Anna Axelsdóttir Sandholt
- Apr 18
- 10 min read
Greenbrier Draugurinn
Elva Zona Heaster sem var alltaf kölluð Zona, ólst upp litlum smábæ í Greenbrier í vestur Virginíu, þetta var afskekktur lítill bær þar sem ekki margt aðkomufólk bjó, heldur voru flestir fæddir og aldri upp þarna.

Ást við fyrstu sýn
Haustið 1896 þegar Zona var aðeins 22 ára hitti hún hinn myndarlega utanbæjarmann Erasmus Edward Trout Shue, hún varð ástfangin við fyrstu sýn, enda Edward eins og hann kallaði sig, mjög sjarmerandi, myndarlegur, vel liðinn og talinn vera valdamikill.
Hann var járnsmiður og hafði flutt til bæjarins frá öðrum litlum bæ sem var nálægt.
Zona hafði lent í hræðilegum harmleik
Zona hafði átt erfitt undanfarið, hún hafði orðið ástfangin af manni og orðið ólétt eftir hann en fjölskyldur þeirra voru á móti þessu sambandi og svo fæddi hún andvana barn, Zona varð mjög þunglynd og átti virkilega erfitt sem gerði það að verkum að sambandið endaði. Zona hafði því mikið lokað sig af undanfarið og verið sorgmædd.
Þegar hún hitti Edward í fyrsta skipti var eins og hún gæti andað aftur, lífið fékk nýjan tilgang og hamingja færðist yfir Zonu í fyrsta skipti í mjög langan tíma, eftir barnsmissirinn.
Edward stofnaði sína eigin járnsmiðju það varð svona staður þar sem fólk safnaðist saman til að ræða um daginn og veginn, Edward var líka úr öðrum bæ og sagði sögur af allskonar ævintýrum þaðan, sem fólki fannst gaman að hlusta á
Zona fór þarna að vera tíður gestur í smiðjunni hans og hlusta á sögurnar og Edward náði henni svona út úr skelinni sem hún hafði verið komin í eftir erfiðleikana og sorgina sem hún þurfti að ganga í gegnum.
Vikurnar liðu og Zona varð ástfangin upp yfir haus af þessum myndarlega manni, hún átti stóra fjölskyldu en var eina dóttir foreldra sinna, þannig að hún og mamma hennar voru mjög nánar, hún var svo spennt að kynna mömmu sína fyrir manninum sem hafði kveikt ljósið í augum hennar og hún var svo innilega ástfangin af.
Mamma hennar fór því í smiðjuna að kynnast Edward. En mamman var sko alldeilis ekki eins hrifin og Zona hafði vonað, það var eitthvað við hann sem hún þoldi ekki, hún meira að segja bannaði Zonu að halda áfram að hitta Edward.
Zona og Edward giftast í laumi
Zona var nú ekki á því og þau Edward ákveða að hlaupast á brott og gifta sig í laumi, þeim fannst það báðum spennandi og þannig gátu foreldrar hennar ekkert gert annað en sætt sig við hjónabandið, þetta var fullkomið.

Þau gerðu það og höfðu svo búskap í húsi Edward, hann var vanur að fara í smiðjuna á morgnanna, koma svo heim og borða hádegismat og fara svo aftur til vinnu.
En einn kaldan dag í janúar 1897 gerðist dáldið óvenjulegt, Edward fór ekki heim í hádeginu þann dag, heldur fer hann til nágranna og biður soninn þar, hinn 11 ára Andy Jones, um að fara heim til Zonu og ath hvort henni vanti eitthvað frá markaðnum ,,ég hef ekki tíma til að fara alla leið heim í hádeginu í dag því það er svo mikið að gera hjá mér, en ef henni vantar eitthvað get ég sótt það á leiðinni heim í kvöld”.
Hinn 11 ára Andy var vanur að hjálpa til og Zona bað hann stundum að sendast eða stússast eitthvað fyrir hana og hún borgaði honum eitthvað smá fyrir aðstoðina.
Hann heldur því af stað heim til nágranna sinna að ath með Zonu.
Þegar hann kemur að húsinu er furðulega hljótt og ekki eins og venjulega þegar Zona er að stússast. Hann gengur upp útitröppurnar en tekur þá eftir blóðdropum á stiganum ,,en skrýtið” hugsar hann en pælir ekkert meira í því heldur opnar hurðina og gengur inn.
Hinn 11 ára gamli Andy kemur að Zonu
Það sem hinn 11 ára gamli drengur sér er Zona, liggjandi á gólfinu fyrir neðan tröppurnar sem liggja upp á efri hæð hússins. Hann verður dauðhræddur en fer svo að velta fyrir sér hvort hún sé kanski bara sofandi, hann fer því að ath hvort hann geti vakið hana, en um leið og hann kemur við hana finnur hann að hún er köld viðkomu og ekkert lífsmark er með henni, hann áttar sig þarna á því að hún Zona er látin.

Í hálfgerðu áfalli hleypur hann til móðir til að segja henni frá, hún sendir hann beint í smiðjuna til að segja Edward frá þessum hræðilegu fréttum og á meðan hringir hún í lækninn, sem er líka krufningalæknir bæjarins.
Það tók Dr. Knapp rúman klukkutíma að koma á staðinn.
Edward batt klút um háls Zonu
Á þeim tíma hafði Edward tekið lík konu sinnar, þrifið það og borið upp á efri hæðina, komið henni fyrir í rúminu þeirra, klætt Zonu í kjól sem var með stífum háum kraga og bundið klút utan um háls hennar og sett svo slæðu fyrir andlit hennar.
Edward útskýrir að það hafi verið hennar ósk að láta grafa sig með þennan klút og að þessi kjóll hafi verið hennar fínasti, þess vegna klæddi hann lík konu sinnar í kjólinn.
Kanski eru þetta eðlileg viðbrögð og sorg hjá Edward, en þegar dr Knapp kom loks á staðinn til að skoða lík Zonu og fá upplýsingar um hvað hafði gerst, bregst Edward furðulega við, þegar læknirinn ætlar að skoða háls Zonu, Edward hafði verið grátandi og í miklu uppnámi, en þegar læknirinn kemur nálægt hálsinum á Zonu, hætti Edward að gráta og verður uppstökkur, læknirinn telur þetta furðulega háttarlag bara vera sorg. Þannig að Dr. Knapp er ekkert að ýta að þetta og kveður, hann skráir dánarorsök sem óstöðvandi yfirlið,
Óstöðvandi yfirlið var dánarorlsök
Óstöðvandi yfirlið var algeng dánarorsök í þá daga, þegar ekki var hægt að útskýra nákvæmlega hvernig manneskjan dó og þá sérstaklega konur.
Þetta var yfirlið sem fólk vaknaði ekki úr (everlasting faint) heldur bara dó.
(þannig var það útskýrt og var talið að þetta ætti við þegar td. fólk fékk hjartaáfall, áður en læknisfræðin komst að því hvernig hjartaáfall er) en Zona var 22 ára, þannig að hjartaáfall er ólíklegt.
Edward vaktaði lík konu sinnar og svaf ekkert í 3 daga
Zona er grafin 3 dögum eftir andlátið en á meðan verið var að undirbúa jarðaförina er Edward að vakta líkið hennar, enginn mátti koma nálægt henni sem var undarlegt, því á þessum tíma var mjög algengt að fólk væri með líkvökur, þar sem fjölskyldan kom saman til að vera með líkinu og kveðja, allir borðuðu saman og sögðu sögur til að minnast þess látna, en það var ekki í boði.
Edward svaf ekkert í þessa 3 daga, heldur vakti hann yfir líki og passaði að enginn kæmi of nálægt hennar eigin móðir mátti ekki einu sinni koma og kveðja dóttur sína almennilega.
Það var eitthvað undarlegt við líkið
En það var fólk sem hafði séð líkið almennilega og þau tóku eftir því að það var eitthvað skrýtið við það, höfuð Zonu var nefnilega alltaf á hreyfingu eins og það væri laust, sem var ekki eðlilegt, það var ekki eins og það væri alemnnilega fast í líkamanum eins og það var vanaleg, það þurfti meira að segja að setja púða og samanbrotið lak til að halda höfðinu á sínum stað í kistunni og það var ekki venjan og alls ekki eðlilegt. Þetta fólk þekkti dauðann vel og fólk í þá daga var ekki eins viðkvæmt fyrir líkum og við erum í dag. Þá þurfi fólkið sjálft að undirbúa líkin því það voru ekki útfarastofur eða neinn sem sá um þetta nema fjölskyldan sjálf.
Daginn eftir útförina, kemur Edward með nýja sögu um það að Zona hafi verið barnshafandi og hún hafi dáið í fæðingu, þrátt fyrir að það væri ekkert barn og engin fæðing. En samt sem áður var það tekið gilt og skráð sem dánarorsök. Það var ekkert spáð í þessu 1897.
Það er talið að Edward hafi verið með sína eigin framtíð í huga þegar hann kom með þessa sögu, því engum datt í hug að rannsaka andlát við fæðingu…
Mary Jane var viss um að Zona hafði ekki dáið af eðlilegum orsökum
En Mary Jane, móðir Zonu var alveg handviss um að Edward væri sekur um meira en bara að búa til sögur, það var eitthvað við þennann mann sem hún treysti ekki, hún var viss um að hann hafði drepið Zonu.

En hún hafði enga sönnun og það er ekki hægt að ákæra mann útaf tilfinningu, þannig að Mary Jane bað til Zonu um að koma með sannanir fyrir þessu, sannanir fyrir því sem gerðist, einhverju sem hún gæti farið með til lögreglu og fengið manninn ákærðann. Því Zona er eina vitnið sem veit hvað raunverulega gerðist.
Hún bað á hverju kvöldi í margar vikur, svo allt í einu kom Zona til hennar í draumi, ekki bara eitt skipti heldur 4 skipti í röð, til að mamma hennar tæki mark á henni og vissi að þetta var ekki bara sorg eða martröð. Zona vildi að skilaboðin færu örugglega ekki á mis.
Zona birtist móður sinni
Zona kemur til mömmu sinnar í draumi og segir henni frá því að Edward hafi komið heim og verið brjálaður af reiði að hún var ekki með kjöt í kvöldmatinn handa honum þetta kvöld, hann hafi ráðist á hana eins og svo oft áður, því hann beitti hana reglulega miklu ofbeldi, en í þetta skiptið gekk hann of langt og hálsbraut hana, sem endaði með því að hún dó.
Zona snéri sér svo við en höfuðið hennar snerist ekki, heldur var kyrrt og hún hélt áfram að horfa í augu móður sinnar á meðan hún gekk í burtu með höfuðið öfugsnúið.
Eftir 4 nætur af þessu var Mary Jane viss um að þetta væri Zona og að þetta væru skilaboð beint frá henni að handan. Mary Jane byrjaði á að segja fjölskyldu sinni frá þessu og bræður Zonu, sem höfðu alltaf haldið uppá hana enda hún eina stelpan, treystu ekki Edward heldur trúði mömmu sinni og hvöttu hana til að fara með þetta til lögreglu eða lögfræðings, sem hún gerir.
Saksóknarinn tekur málið í sínar hendur
Hún talar við saksóknarann John Alfred Preston og segir honum frá því sem draugur Zona hafði sagt henni.
Hann tekur henni alvarlega og spyr útí smáatriði.
Mary jane segir honum hvar hann geti fundið blóð og fötin sem Zona var í þegar hún var myrt, allt upplýsingar sem komu frá Zonu. Hún segir honum líka að Edward hafi hálsbrotið dóttur sína og að ummerki finnist á hálsi Zonu.
Saksóknari talar þá við Dr. Knapp sem segir frá því að þetta hafi verið skrítið og að hann hafi aldrei fengið að rannsaka líkið almennilega og að hegðun Edward hafi verið meira en furðuleg.
Ótrúlegt en satt, fá þau það í gegn að grafa upp líkið til frekari rannsóknar, þrátt fyrir kröftug andmæli Edward og þá staðreynd að þetta var ekki venjan.

Líkið bjó yfir sönnunum um morð
En þar sem þetta var bara mánuði eftir jarðaförina og það var mjög kalt á þessum tíma, í febrúar 1897, er líkið í góðu ásigkomulagi þannig að auðvelt er rannsaka og komast að ýmsu. Það er gerð krufning og fundust fingraför á hálsi hennar og greinilegt að hún hafði verið kyrkt, hálsinn var brotinn og þetta var mjög hrottalegt, greinilega gert með miklum krafti. En eins og við vitum er Edward járnsmiður, hann er sterkur og getur auðveldlega valdið miklum skaða ef hann er í þannig skapi.
Þegar þessu er lokið, er Edward kallaður á fund og honum tjáð að á líki konu hans hafi fundist sannanir um það að hún var kyrt og hálsinn brotinn, eins og draugur Zonu hafði lýst.
24 feb 1897 var Edward handtekinn og færður í fanglesi.
Þegar réttarhöldin hófust komst ýmislegt upp…
Edward átti dökka fortíð sem Zona vissi aldrei af
Edward átti fortíð, dökka fortíð hann hafði nefnilega verið giftur áður og ekki bara einu sinni heldur tvisvar.
Fyrsta konan hans Ally hafði eignast með honum barn, dóttur sem þau skýrðu Gertha en hjónabandið var ekki beint hamingjusamt.
Hann hafði gengið svo hrottalega í skrokk á konu sinni Ally að eitt kvöld þegar hann var sofandi, komu menn bæjarins og drógu hann fram úr rúminu og hentu honum á nærfötunum út í ískalda á þarna í bænum, sennilega til að kenna honum lexíu og að senda þau skilaboð að svona framkoma við eiginkonu væri ekki boðleg.

(sem segir svo mikið þar sem þetta er að gerast við lok 18 aldar og þá var ekki mikið spáð í hvað gekk á inná heimilum fólks og því miður oft mikið um heimilisofbeldi)
Þetta hjónaband endaði á að Edward henti konunni og barninu sínu út og fluttust Ally og Gertha til foreldra Ally, Edward sleit svo öllum samskiptum við bæði Ally og Gerthu.
Hann Edward okkar lærði nú lítið af þessu samt og var stuttu seinna handtekinn fyrir hesta þjófnað, hann sat inni fyrir það í nokkur ár, á meðan hann sat í fangelsi notaði Ally tækifærið og sótti um skilnað við hann sem gekk eftir, þar sem hann hafði yfirgefið konu sína og barn.
(þetta var ekki algengt á þessum tíma).
Edward ætlaði að eignast 7 konur í viðbót
Á meðan á fangelsis dvölinni stóð, gortaði Edward sig af því að hann ætlaði að eignast 7 konur í viðbót hann væri sko bara rétt að byrja, hvort sem hannn hafði hugsað sér að eiga þær allar í einu eða hvor á fætur annari eftir að sú fyrr væri látin, er óvitað
Önnur kona Edward, Lucy Ann sem hann giftist skömmu eftir skilnaðinn við Ally, lést um 8 mánuðum eftir brúðkaupið við frekar furðulegar aðstæður.
Edward sagði að hann hefði verið að gera við skorsteininn í húsinu þeirra, hann var uppi á þaki og henti múrsteininum niður á jörðina fyrir neðan, þar sem hann þurfti að skipta þeim út.
Akkúrat þegar hann hendir einum músteini, gengur Lucy Ann sem er að koma með vatn handa honum, fyrir og steinninn lendir í höfðinu á henni, sem drepur hana samstundis.
Öllum bæjarbúum fannst þetta út í hött og enginn trúði þessu, sem varð til þess að Edward flúði bæinn og settist að í Greenbrier, þar sem hann kynntist Zonu.
Zona vissi aldrei af þessu, enda auðvelt að flytja bara á milli staða á þessum tíma til að halda svona hlutum leyndum, þar sem ekki mikil samskipti voru á milli bæja á þessum stað á þessum tíma.
Það sem er áhugavert að taka með í myndina hér er líka að á þessum tíma, var spiritualismi að ryðja sér til rúms á heimsvísu og fólk var áhugasamt og spennt fyrir draugum og andlegum hlutum. Kannski hefur það haft áhrif á að þetta er eitt af fáum málum í heiminum þar sem draugur leysti sinn eigin glæp…

Edward lést í fangelsi
En 1. Júlí 1897 var Edward dæmdur fyrir morð á eiginkonu sinni Zonu og hlaut hann lífstíðardóm í fangelsi, hann lést reyndar í fangelsi um 3 árum eftir að hann hóf vistina í fangelsinu, af einhverjum smitsjúkdómi sem geysaði á þeim tíma.
Ef þú eða einhver sem þú þekkir þarfnast aðstoða vegna heimilisofbeldis, geturðu leitað á eftirtalda staði.
Linkar:
Kvennaathvarf:https://kvennaathvarf.is/
Stígamót: https://stigamot.is/
Hjálparsími Rauðakrossins er 1717: https://www.raudikrossinn.is
Vörður tryggingar: https://vordur.is/vernd
Comments