top of page

Heol Fanug - Velska Amityville

  • Writer: Katrín Sandholt
    Katrín Sandholt
  • Jun 4, 2024
  • 16 min read

Updated: Sep 30, 2024

Úr 6. þætti; "Reimdir Staðir"

Sagan sem ég ætla að segja ykkur byrjar í raun í Egyptalandi seint á 9. áratug,

Bill Rich fór þá í ferðalag með nýju konunni sinni Liz og syni sínum Lawrence. 

Að ferðast til Egyptalands var langþráður draumur Lawrence og Bill taldi það frábæra leið til þess að leyfa Lawrence og Liz að kynnast betur þar sem samband Bill og Liz var frekar nýtt.

 

Einn morguninn fóru þau snemma af stað til þess að komast á undan ferðamannastraumnum að píramídunum, þó það var enn snemma var sólin sjóðandi heit, en þegar þau komu inn í píramída Cheops var eins og þau höfðu gengið á kaldann, rakann vegg. 


Egyptaland á 9. áratug

Liz gekk á undan að gröfinni og fór þá að sjá skrítin ljós dansa eftir veggjunum, fullt af litlum ljósum sem birtust upp úr þurru, hún nefndi ljósin við Bill og Lawrence en varð hissa þegar þeir kváðust ekki sjá þau. 

Um leið og þau komu inn í grafhýsið fundu feðgarnir fyrir yfirþyrmandi óþægindatilfinningu. Liz sá á þeim að það var eitthvað að, hún spurði þá hvað en þeir sögðust báðir finna fyrir einhverri orku þarna inni sem hræddi þá. 

Liz fór sjálf að finna fyrir þessari nærveru og þau hlupu öll eins hratt og þau gátu út úr píramídanum.


Það er auðvelt að afskrifa þetta atvik sem eðlilega ótta tilfinningu verandi í drungalegri gröf í dularfullum píramída, 

nema þau atvik sem áttu eftir að eiga sér stað seinna virðast tengjast inn á þetta augnablik..



Þegar þau voru komin aftur til Englands og samband Bill og Liz var farið að verða alvarlegra ákváðu þau að finna sér heimili saman og urðu ótrúlega spennt fyrir fallegu sveita húsi í miðju Velsku sveitinni sem var innan þess verð ramma sem þau höfðu efni á. 

Það sem þau vissu ekki var að flutningurinn þangað var upphafið af margra ára óskiljanlegra vandamála og að raunveruleikinn sem þau þekktu myndi gjörbreytast.


Húsið sem þau fluttu í kallast Heol Fanog og þýðir á velsku “Leiðarendi”, húsið hefur þó verið kallað ýmsum nöfnum í gegnum tíðina og er líka þekkt sem Velska Amityville m.a. 


En þetta yrði húsið sem Rich fjölskyldan myndi alltaf sjá eftir að hafa flutt í.

Stuttu eftir að Bill og Liz giftu sig flutti fjölskyldan inn í húsið þá sumarið 1989, Liz var þá kasólétt af fyrsta sameiginlega barninu þeirra hjóna.


Húsið

Um leið og þau komu að húsinu fundu þau fyrir skrítni tilfinningu, þau lýstu henni sem að stíga inn í orku kúlu, þau litu á þetta sem verndarkúlu og túlkuðu þessa tilfinningu sem öryggi og vernd yfir húsi og fólki. 


Húsið var afskekkt og fjölskyldan upplifði staðsetninguna sem griðarstað frá samfélaginu, sem hentaði fullkomlega fyrir unga fjölskyldu. Bill var listmálari og naut þess að hafa frið til þess að mála. 


Hjónin voru þó sammála um að þau yrðu að fara varlega í samskiptum við Lawrence, þau höfðu tekið unglinginn frá öllu sem hann þekkti og vinum og fært hann upp í sveit með nýja stjúpmömmu og systkini á leiðinni. Það var smá stirt á milli en að mestu kom honum og Liz vel saman.


Hjónin með Ben lítinn

Í október sama ár fæðist litli Ben, fæðingin hans markaði einskonar upphaf af nýju fjölskyldulífi fyrir hjónin og þau voru spennt að hefja þennan kafla í lífinu.

En aðeins mánuði seinna byrjuðu skrítnir hlutir að eiga sér stað í húsinu..



Eitt kvöldið höfðu Bill og Liz nýlokið við smá ástarlotur, en þá fann Bill fyrir hrikalegri sektarkennd allt í einu.


Hann spurði Liz hvort hún heldi að þau hefðu haft of hátt og hvort hún héldi að Lawrence hefði nokkuð heyrt í þeim. Hann fann fyrir mikilli skömm og var mjög hræddur við að Lawrence myndi heyra í þeim, þetta var auðvitað gamalt viðarhús og hljóð ferðaðist auðveldlega.


Bill fór fram úr til þess að fara á klósettið og Liz gaf Ben á meðan, Bill opnaði varlega inn til Lawrence en sá að drengurinn lá steinsofandi í rúminu sínu. Hann hélt áfram niður stigann til þess að fara á klósettið og stóð í smá stund í þungum þönkum að klára að pissa þegar hann hrökk allt í einu við að heyra hávært hljóð á hæðinni beint fyrir ofan sig. 


Hljóðið var eins og einhver að hlaupa harkalega um í þungum skóm.


Bill fann aftur fyrir sektarkenndinni mjög sterkt, hann var viss um að Lawrence hefði heyrt í þeim. Hann fór aftur upp en þó að hljóðin hefðu heyrst af þeirri hæð sem svefnherbergin voru hafði Liz ekki heyrt neitt.

Hún var nýbúin að leggja Ben niður aftur eftir gjöf og allt húsið var hljótt. 


Morgunin eftir sat Bill við eldhúsborðið að opna póstinn þegar honum var heldur betur brugðið aftur, hann opnaði rafmagnsreikninginn fyrir fjórðunginn og hann hljóðaði upp á 750 pund, árið 89 jafngildir það um 350þ krónum. 



Liz við rafmagnstöfluna

Fyrir þennan tíma, stærð hússins og notkun þeirra á rafmagni var þessi upphæð stjarnfræðilega há. 

Það var enginn möguleiki á að þau væru að nota svona mikið rafmagn. 

Þetta var því miður ekki einhver einn uppgjörsreikningur, heldur var þetta verðið sem þau urðu að borga nánast allan tímann sem þau bjuggu í húsinu.


Þessar upphæðir leiddu til allskonar ágreinings á milli fjölskyldunnar og rafmagnssala, fyrirtækið sendi margoft tæknimenn til þess að skoða eignina og reyna að finna upptök þessa rafmagnsleka sem var nokkuð ljóst að væri. 

En það eina sem þeir gátu fundið út var að það var ekkert að lögnunum sem lágu að húsinu og þar með skaust ábyrgðin yfir á húseiganda.

Bill fékk þó nokkra mismunandi tæknimenn heim að mæla öll rafmagnstæki í húsinu en það fannst aldrei nein orsök fyrir þessari háu notkun.


Sama dag og fyrsti reikningurinn kom var Liz uppi að gefa Ben á meðan Bill var niðri að hella upp á kaffi og Lawrence var úti. 

Liz heyrði þá eins og skellt væri hurð hinum megin á ganginum uppi, svo önnur hurð og koll af kolli þar til að komið var að hurðinni sem gekk inn að herberginu sem hún var í. 


Nema sú hurð var þegar lokuð. 


Hún varð bæði hrædd og gáttuð þegar hún heyrði greinilega hurðina inn í herbergið skellast harkalega, þó hún væri lokuð og virtist ekkert hreyfast, það var bara hljóðið.


Bill kom hlaupandi upp til að gá hvað væri um að vera og fann þá konuna sína dauðhrædda með ungabarnið í fanginu. 

Þau fóru niður og ræddu það sem hafði gerst núna en líka kvöldið áður þegar þau heyrðu allt í einu kröftug fótatök á efri hæðinni, ekki eins hávær og kvöldið áður en mjög greinileg samt sem áður. 

Þau heyrðu hvernig fótatökin hreyfðust niður stigann, skref fyrir skref þar til þau voru komin neðst í stigann. 

Bill færði sig varlega að dyragættinni og hoppaði fram til að sjá hver væri í stiganum, en það var enginn. 


Eins og með rafmagnsvesenið urðu þessi fótatök að daglegu lífi í litla sveita húsinu.


Aðeins nokkrum dögum seinna fann Bill mikla brennisteinslykt í eldhúsinu, lyktin virtist koma og fara.

Margir mismunandi einstaklingar voru kallaðir út að húsinu til þess að rannsaka upptök lyktarinnar, en það fannst aldrei neitt. 


Liz og Bill voru farin að halda að það fylgdi þeim eða húsinu einhver ógæfa snemma 1990, Bill fór allt í einu að fá töluvert minna að gera en venjulega, en hann var áður mjög eftirsóttur listmálari, viðskiptavinir afbókuðu á síðustu stundu myndir, án ástæðu. 


Rafgeymirinn í bílnum þeirra tæmdist reglulega án neinnar ástæðu, þannig að þau ákváðu fyrir rest að selja bílinn til þess að eiga fyrir reikningum. Þetta varð auðvitað líka til þess að þau einangruðust enn meira.


Furðulegir hlutir voru líka á seyði hjá dýrunum, fjölskyldan átti hund, kött og naggrís og nokkur húsdýr á landinu. 

Öll þeirra fóru að sýna af sér undarlega hegðun, nánast eins og geðveilu. 



Bill og Liz þegar þau voru nýlega flutt inn

Ein geit fæddi tvo kiðlinga, en kramdi annan þeirra nánast strax. 

Svínið fékk einhvern óútskýranlegan sjúkdóm og það varð að skjóta það. 

Hundurinn fór að haga sér furðulega og hlaupst svo á brott.


Naggrísinn fannst dauður í búrinu sínu og kötturinn fór að ganga í hringi eins og eitthvað hefði hrætt hann. 


Eitt og sér hefði ekkert af þessum atvikum valdið neinum áhyggjum, en það að þetta gerðist allt á svipuðum tíma varð til þess að fjölskyldunni var hætt að standa á sama.


Fyrir utan þessi atvik fundu Liz og Bill stöðugt fyrir því að einhver væri að fylgjast með þeim, eins og það væri einhver með þeim inni í húsinu sem þau gátu ekki séð en fundu mjög greinilega fyrir. 

Svipað þeirri orku sem þau fundu fyrir í Egyptalandi nokkrum árum áður..


Ef Lawrence var að upplifa eitthvað svipað, var hann allavega ekki að segja frá því. 

Ekki það að Bill og Liz töluðu ekki mikið við hann, því þegar þessi atvik hófust breyttist Lawrence töluvert. 

Hann fór úr því að vera góður, vinalegur drengur í að vera kaldur, fjarlægur og fýlugjarn unglingur sem hafði engan áhuga á að eiga samskipti við pabba sinn og stjúpu. 


Til þess að leyfa honum að gera herbergið sitt meira að sínu, gaf Bill honum pening fyrir málningu. 


Lawrence eyddi allri nóttinni í að mála herbergið sitt, þegar Bill og Liz kíktu inn í herbergið um morguninn sáu þau að hann hefði málað herbergið í djúp, blóð rauðum lit.


Lawrence varð dónalegri og agressívari með tímanum, hann hélt vöku fyrir öllum um nætur með banki og horfandi á hryllingsmyndir á hæstu hljóðstillingu. 

Eitt skipti þegar amma hans kom í heimsókn, kom Lawrence inn í vondu skapi og rauk að stiganum til þess að fara upp í herbergið sitt án þess að yrða á neinn. 


Amma hans ákvað að reyna að eiga við hann orð og reyndi að stoppa hann í stiganum en Lawrence öskraði þá á ömmu sína að koma sér frá honum, Bill sagðist ekki þekkja röddina sem kom út úr barninu.


Þegar amman reyndi aftur að tala við Lawrence öskraði hann á hana að “fokka sér” með rödd sem er lýst sem því næst djöfullegri og hrækti svo framan í hana.

Hann rauk svo upp í herbergi og var þar allt kvöldið, Bill og Liz vöknuðu þó aftur við djöfulganginn í honum þá nóttina. 


Hann heyrðist henda hlutum og grátöskra en alveg sama hvað Bill og Liz reyndu, neitaði hann að opna hurðina. 

Morguninn eftir fór hann út snemma, Bill og Liz sáu þá að hann hafði gjörsamlega rústað herberginu sínu og kýlt göt yfir allan vegginn.


Það var á þessum tíma sem hjónin ákváðu að fá aðstoð prests og kölluðu til Kaþólska prestinn í bænum. 


Presturinn blessaði heimilið og allt varð friðsælt í smá tíma, en aðeins 4 dögum seinna var Liz að koma heim með Ben og var litið upp í herbergisgluggann hans Bens, í glugganum sá hún andlit gamallar konu sem virtist vera að fylgjast með þeim. 


Liz hljóp upp að húsinu og upp í herbergi en það var auðvitað enginn þar. 


Þessi kona, eins og svo margt annað, yrði nánast daglegur gestur á heimilinu og sást margoft, ekki bara af þeim hjónum heldur einnig af Ben og verðandi dóttur þeirra Rebekku.


Rebekka minntist þess seinna að hafa séð þessa konu og lengi haldið að hún hafði verið einhver fjölskyldumeðlimur eða vinur, hún var svo eðlilegur partur af lífinu hennar.


Konan virtist þó ekki gefa frá sér neikvæða orku, eins og svo margt annað í húsinu, hún virkaði frekar döpur og að hún virtist vera að vaka yfir börnunum.


Liz komst svo að því að gamla konan var ótrúlega lík konu sem hafði áður búið í húsinu fram að dauða sínum.


Næstu mánuði höfðu Bill og Liz samband við allan fjöldan af miðlum, prestum, andlegu fólki og jafnvel særingarmönnum til að reyna komast til botns í því sem var að gerast á heimilinu. 


Mismunandi niðurstöður fengust frá því fólki, einn sagði að það væru 7 nornir í húsinu, en það má nefna að svæðið í kring var mjög þekkt fyrir galdra á miðöldum, aðrir sögðu að húsið væri ofan á myrkum landlínum og að það gæti verið ástæðan fyrir því að myrk öfl löðuðust að umhverfinu og enn aðrir sögðu að húsið væri byggt á gömlum keltneskum grafreiti. 


Nokkrir sögðu að það væru 4 andar í húsinu, þar á meðal gamla konan, tveir yngri menn og eitthvað annað sem vildi ekki láta sjá sig, eitthvað sem virtist laðast helst að Bill.


Einn af miðlunum sem komu hafði miklar áhyggjur af neikvæðu áhrifum hússins á Lawrence, eftir miklar vangaveltur ákvað Bill að taka þessum áhyggjum alvarlega öryggi sonar síns vegna, hann trúði ekki endilega öllu sem honum var sagt en hann vissi að hegðun og líðan Lawrence hafði breyst ótrúlega mikið og nánast yfir nótt. 


Bill ákvað því að senda Lawrence í heimavistarskóla. Lawrence var auðvitað brjálaður yfir þessari ákvörðun, en það virtist virka.


Nánast yfir nótt var hann aftur orðinn að þeim blíða, jákvæða unga manni sem hann var áður en þau fluttu í húsið og með tímanum gátu hjónin og Lawrence byggt upp sambandið sitt aftur. 


Af öllum börnunum lenti Lawrence verst í því sem gekk á í húsinu, en hann hefur líka verið sá sem hefur helst ekki viljað tjá sig um þennan tíma.


Hvað svo sem var að hrjá Rich fjölskylduna, virtist það ekki bara stoppa í húsinu þeirra, í bænum allt í kringum húsið voru lömb og kálfar að fæðast blind eða vansköpuð. 


Fólkið í nærliggjandi bæum var vel meðvitað um það sem gekk á hjá Rich fjölskyldunni og hringdi reglulega í þau til að láta þau vita af þeim hlutum sem gerðust á öðrum bæjum en líka til að segja þeim frá öðrum skrítnum hlutum sem höfðu gerst í sveitahúsi þeirra hjóna í mörg ár áður en þau fluttu inn. 


Liz varð einn daginn að kalla til pípara því klósettið hafði losnað frá gólfinu, þegar píparinn mætti var allt í lagi með klósettið, það virtist hafa verið fært til og svo sett aftur á sinn stað. 


Píparinn sagði henni þá að þetta var ekki í fyrsta sinn sem hann ynni í húsinu, hann sagði henni að á 7 áratugnum hafði hann sett upp ofna fyrir konuna sem bjó þar þá, hann var með lærling með sér sem leið strax furðulega í húsinu og neitaði að vinna þar einn. 


Píparinn og lærlingurinn settu upp ofnana og fóru svo heim eftir langan vinnudag. 


Morguninn eftir hringdi konan í píparann aftur og sagði honum að þegar hún vaknaði hafi allir ofnarnir verið komnir niður af veggjunum. 


Hissa á því hvernig þetta hefði getað gerst fór píparinn aftur upp eftir til þess að laga ofnana, hann setti þá alla upp aftur og fór. 


Næsta morgun fékk hann nákvæmlega sama símtalið, konan á bænum hafði uppgötvað að allir ofnar væru komnir af veggjunum. 


Svona gekk þetta, aftur og aftur, píparinn lagaði ofnana og konan koma að þeim aftur á gólfinu daginn eftir. Hann sagðist aldrei hafa getað útskýrt þetta.


Einn nágranna þeirra hafði samband við Bill, vitandi að hann væri listmálari og bað hann um að mála mynd af hestinum sínum. 

Bill varð auðvitað himinlifandi með þessa pöntun, sérstaklega þar sem hann hafði ekki haft mikið að gera síðustu mánuði. 


Hann málaði hestinn stæðilegann á nálægum akri, en hann átti í smá erfiðleikum með að mála aðra afturlöppina almennilega og fannst hann aldrei ná henni réttri. 


Hann kláraði verkið eftir bestu getu og fór með það til nágrannans. 



Dalurinn þar sem húsið er

Þegar hann kom til nágrannans kom hann að honum í nokkru uppnámi. Nágranninn sagði Bill að hesturinn hans hefði brotið á sér fótinn og hann hefði orðið að skjóta hann. 


Nágranninn fölnaði þegar hann sá myndina sem Bill hafði málað, fóturinn sem Bill hafði átt í erfiðleikum með var fóturinn sem var brotinn, ekki nóg með það því akurinn sem hesturinn stóð á var akurinn sem hesturinn hefði verið skotinn á.. 

Og staðurinn sem hesturinn stóð var staðurinn þar sem hann nú lá grafinn.


Bill var skiljanlega mjög brugðið, hann fór þarna að trúa á ógæfuna sem aðrir hefðu minnst á við hann. 

Nágranninn brenndi málverkið.


Í hvert sinn sem einhver kom til þess að aðstoða þau, prestar, miðlar o.fl varð allt rólegt í húsinu í smá stund. En svo fór allt af stað aftur.


Eftir að fjólskyldan hafði búið í húsinu í um það bil ár fór Liz að sjá einhvern fyrir utan húsið, standandi í garðinum í skjóli við trén. 

Hún leit kannski út um gluggann og sá þá allt í einu einhvern standandi þarna, í mestu rólegheitum að fylgjast með húsinu. 


Liz sá aldrei vel andlit og þau voru alltaf horfinn þegar hún fór út til þess að kanna málið betur.


Á þessum tíma var Liz kasólétt af dóttur þeirra, Rebeccu, þegar Rebecca fæddist virtist gamla, sorgmædda konan gera oftar vart við sig. 


Öll fjölskyldan var andlega þreytt, hrikalega vonlaus um að finna út úr því sem var að gerast á heimilinu og hvernig ætti að stoppa það.


Þau reyndu að fá aðstoð hjá félagsmálastofnun til þess að flytja úr húsinu, en allur peningurinn þeirra var auðvitað fastur í húsinu og þeim lánum sem því fylgdi, en þau fengu enga aðstoð.


Rétt eftir jólin 1990 sá Liz eitthvað sem gerði algjörlega útslagið. 


Hún gekk inn í herbergi þar sem stóð risastór skuggavera, hún var með furðulega lagað höfuð og var sennilega í kringum 2 metrar á hæð.

Þessi vera hafði hrikalega nærveru og Liz fannst hún finna fyrir mikilli ílsku frá henni, miklu meira en nokkru öðru sem hún hafði séð í og í kringum húsið fram að þessu. 


Liz ákvað á þessari stundu að hún yrði að koma fjölskyldunni sinni út úr þessu húsi.


Þau fengu inni hjá móðir Liz og á meðan þau voru þar komust þau í samband við fleiri trúarleiðtoga sem þau vonuðu að gætu hjálpað sér með húsið og það sem var á seiði þar. 


Þó fjölskyldan væri ekkert sérstaklega trúuð vissu þau hreinlega ekki hvert þau gætu annað leitað og leituðu til Kristinnar trúar sem mögulega leið út úr þessu helvíti sem þau lifðu í.


Þó það sem var í húsinu virtist ekki fylgja fjölskyldunni þá voru samt nokkrir furðulegir atburðir sem áttu sér stað á meðan þau voru hjá móður Liz.


Vatnspollar birtust upp úr þurru og bjuggu til rakaskemmdir þó enginn leki fyndist neinstaðar. 


Móðir Liz fann svo hálsmen heima hjá sér sem leit út fyrir að vera Egypskt og gekk út frá því að Liz ætti það, en þegar hún ætlaði að skila Liz meninu var Liz bara hissa og hafði aldrei séð það áður, þegar Bill tók það upp fékk hann rafmagnsstuð sem hann fann sterkt fyrir í öllum líkamanum og varð að henda því frá sér. Bill ákvað að eyðileggja menið.


Liz með David og Rebeccu

Fjölskyldan sneri aftur í húsið en tóku með sér Baptista prestinn David Holwood og fyrrum Djöflatrúar konuna Anitu Dick. 

Í tvö mismunandi skipti sem David og Anita komu keyrandi að húsinu flaug fugl í framrúðuna á bílnum.



Á þessum tíma voru málverkin sem Bill málaði orðin ansi dimm og drungaleg, en hann var vanur að mála létt og gleðileg verk. 


Davið trúði því að það væru hlutir á heimilinu sem gætu verið að mata neikvæðu orkuna í húsinu og lét Bill og Liz brenna helling af eignum sínum, þar á meðal bækur sem Bill hafði safnað í gegnum árin um spíritisma og dulspeki en einnig mynd sem Bill hafði verið að vinna að sem var meðal annars af hinu alsjáandi auga Egypta.


Liz fór að lenda í því að vera vakin um nætur af því sem hljómaði eins og kattar hljóðum, eitthvað sem var mitt á milli þess að hrjóta og mala. 


Eina nóttina heyrði hún það koma undan rúminu og henti kodda í áttina til að reka köttinn þeirra fram, hljóðið hætti ekki þannig að hún fór fram úr til að gá að kettinum og áttaði sig þá á því að hljóðið var ekki að koma undan rúminu, heldur frá glugganum. 


Þetta hljóð var heldur ekki að koma frá kettinum og var mun dýpra og eins og það kæmi neðar úr hálsi. Um leið og hún gekk að glugganum til þess að draga frá og kíkja hætti hljóðið. 

Það var ekkert fyrir utan gluggann. 

Liz lenti í þessu sama atviki margar nætur í nokkrar vikur eftir þetta kvöld en náði aldrei að finna út úr því hvaðan hljóðið var að koma.


Á svipuðum tíma fór Bill að mála verk sem hann kallaði meistaraverk sitt, risa málverk af glóandi krossi sem hann nefndi “Testimony” eða “Vitnisburður” en nafn verksins er einmitt nafn bókarinnar sem blaðamaðurinn Max Chador skrifaði um atburðina í Heol Fanug.


Eftir að hjónin brenndu hlutina sem presturinn mælti með var nokkuð rólegt í húsinu, Liz sá annað slagið fígúrur í garðinum en þær voru meira eins og skuggar sem hún sá útundan sér og hurfu um leið og hún leit upp. Rafmagnsmælirinn hins vegar var enn í botni, enda voru verurnar ekki farnar.. Aðeins í hvíld.


1993 varð Liz aftur ófrísk, og eins og eftir klukku varð allt vitlaust aftur í húsinu.


Bill var einn að skræla gulrætur í eldhúsinu þegar hann sá útundan sér að einhver, sem hann hélt væri Liz, stæði fyrir aftan hann. 


Þegar hann sneri sér sá hann konu standa þarna í eldhúsinu hans, hún var mjög falleg og starði á hann. Hún sagði ekkert, heldur sneri sér við og gekk í burtu. 

Bill sagðist hafa fundið mjög sterka þörf fyrir að elta hana, en á sama tíma að hann þyrfti að standast freistinguna, sem hann gerði.


Bill fór að fá martraðir um Egyptaland, sérstaklega dreymdi hann um stóra mynd með fuglahaus sem líktist egypska guðinum Horus, 

en þessar martraðir fóru að taka sér mynd í veruleikanum líka. 


Eitt kvöldið stóðu Bill og Liz í eldhúsinu þegar þau sáu bæði þessa fígúru, Liz sá strax að þetta var sama skuggavera sem hún hafði séð um veturinn 1990 og varð til þess að þau flúðu húsið.


Særingamaður að nafni Dr John Ason blandaðisti inn í málið og eyddi hann mánuðum saman á heimilinu í bæn og við helgiathafnir með hjónunum.E

nn og aftur virtist þetta róa virknina, en eins og pendúll sveiflaðist ástandið úr rólegheitastundum og að virknin kom með heift , aftur og aftur í mörg ár.


Einhver skýring á virkninni virtist vera fjöldi morða og aftaka sem höfðu átt sér stað á svæðinu, eitt af þessum morðum átti sér stað á landi Heul Fanug.


Seint á árinu 1993 kom maður að nafni Eddie Burks að málinu, hann hafði þá getið sér nokkurt nafn á sviði andlegra mála eftir að hafa hreinsað hauslausann anda úr þekktri byggingu. 

Á næstu árum kom Burks oft til fjölskyldunnar. Hann sagðist sjá marga anda, en eins og margir áður höfðu sagt fannst honum eitthvað illt vera búið að hreiðra um sig í húsinu. 


Á svipuðum tíma upplifði Bill eitt af því versta sem hann hafði upplifað í húsinu.

Eitt kvöldið sat hann einn við eldhúsborðið þegar hann tók eftir því að stóri eldhúshnífurinn lá á borðinu. Þar sem Bill og Liz voru með tvö lítil börn í húsinu voru þau einstaklega pössunarsöm með hnífa og skildu aldrei hnífa eftir þar sem börnin gætu nálgast þá.

Honum var brugðið að sjá hnífinn, en tók eftir því að hugur hans fylltist af allskyns dimmum hugsunum þegar hann horfði á hnífinn. Hugsanir um dauða, ofbeldi og sjálfsvíg heltóku huga hans. Hann varð hræddur og gekk frá hnífnum, en þegar hann sneri sér aftur að borðinu lá hnífurinn á nákvæmlega sama stað.


Það var þá sem Bill skildi að það var eitthvað í húsinu sem vildi skaða hann.

Sem betur fer kom Eddie Burks aftur til þess að framkvæma aðra særingu, í þetta sinn róaðist húsið töluvert aftur. Hjónin héldu áfram að sjá helling af fólki í kringum húsið, tilfinningin um að það væri enn eitthvað illt í húsinu var enn til staðar þó mun minni en áður.


Eddie Burks

Sumarið 1995, eða rúmu ári seinna var loka hnykkurinn á 5 ára baráttu í Heul Fanug.

Eddie Burks mætti með tvo andlega rannsakendur, annar þeirra Maurice Gross hafði verið aðal rannsakandinn í máli Enfield draugaganginum.

Burks sagðist hafa fundið út hvaða myrku öfl væru í húsinu, hann vildi meina að það væri forn, ill, heiðin vera sem hafði á einhverjum tímapunkti verið boðin velkomin á landseignina af einhverjum sem vissi ekki hvað hann var að gera. 


Burks og rannsakendurnir framkvæmdu aftur særingu, sem að þessu sinni var einbeitt að þessari myrku veru. Særingin tókst loksins, í fyrsta sinn í mörg ár var húsið í ró.

Næsti rafmagnsreikningur sem hjónin fengu var mun lægri, og reikningarnir lækkuðu jafnt og þétt með hverjum reikning þar til upphæðin var komin undir meðaltal svæðisins.


Draugagangurinn minnkaði líka jafnt og þétt, það varð ekki rólegt yfir nótt en illa aflið virtist horfið. Tilfinningin var eins og andrúmsloftið væri léttara, að þessi orku kúla sem þau fundu fyrir upphaflega hefði leysts upp.

Eddie sagði þó hjónunum að þó þessi myrka vera væri farin, væri húsið og landið í kring mikið orkusvæði og myndi alltaf vera einhver andleg öfl þar. Sérstaklega sá hann að verur kæmu þangað þegar þær voru týndar og að þær kæmust yfir í ljósið í gegnum svæðið í kringum húsið.


Bill og Liz sáu áfram fígúrur í garðinum hjá sér allan tímann sem þau bjuggu í húsinu, en þeim fylgdi ekki nein vond tilfinning. 

Loksins gat fjölskyldan notið þess að búa í litla, fallega, sveita heimilinu sem þau féllu fyrir.



Hlustaðu á hlaðvarpsþáttinn um Reimda Staði, þar sem við ræðum meðal annars þessa frásögn!



Comments

Rated 0 out of 5 stars.
Couldn’t Load Comments
It looks like there was a technical problem. Try reconnecting or refreshing the page.

Fáðu greinarnar beint til þín!

  • Facebook
  • Instagram
  • TikTok
  • Spotify

© 2024 Hulin Öfl                                                                                                                                                           hulinofl@gmail.com

bottom of page